Í gærkvöldi var haldið námskeið fyrir slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Endurlífgun, sárameðferð, notkunar sjálfvirkra hjartastuðtækja og samstarfi við sjúkraflutningamenn á slysavettvangi. Sérstaklega var farið yfir virkni og notkun hjartastuðtækis sem kvenfélög Villingaholtshrepps, Hraungerðishrepps og Gaulverjabæjarhrepps færðu Brunavörnum Árnessýslu að gjöf í lok síðasta árs.

Þetta var þriðja námskeiðið af þremur sem haldin hafa verið með þessu sniði fyrir slökkviliðsmenn BÁ í þessum mánuði.

Höskuldur Friðriksson, varðstjóri hjá sjúkraflutningum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sá um kennslu námskeiðsins en hann hefur áratuga reynslu sem bráðatæknir bæði hér á Íslandi og í USA þar sem hann bæði lærði og starfaði um árabil.

Vel var mætt á námskeiðið, yfir tuttugu slökkviliðsmenn og fjórir lögreglumenn gáfu sér tíma til þess að mæta og auka þar með á þekkingu sína sem nýtist svo sannarlega á ögurstundu.

Námskeiðið var haldið á Flúðum í húsnæði Björgunarfélagsins Eyvindar en þar er fyrirmyndar aðstaða til námskeiða af þessu tagi.

Ekki væsti um námskeiðsmenn í hléum en Sindri Bakari, Ljónastíg 8 á Flúðum, sendi drekkhlaðinn bakka af kræsingum fyrir menn að gæða sér á. TAKK Sindri :)