Ákvörðun um ráðningu varaslökkviliðsstjóra hefur verið tekin af stjórn og slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu en um stöðuna sóttu átta einstaklingar.

Úr hópi hæfra umsækjenda var ákveðið að ganga til viðræðna við Sverri Hauk Grönli og hefur hann ákveðið að taka starfinu. Sverrir Haukur hefur starfað sem atvinnuslökkviliðsmaður síðastliðin sextán ár. Hann starfaði fyrstu tíu árin hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en síðastliðin sex ár hefur hann starfað hjá slökkviliðinu í Bergen í Noregi. Sverrir Haukur hlaut menntun atvinnuslökkviliðsmanna hjá Redningsverket í Svíþjóð og hefur lokið stjórnunarnámi fyrir stjórnendur slökkviliða í Noregi er veitir honum heimild til að starfa sem slökkviliðsstjóri þar í landi samkvæmt norskum lögum. Sverrir Haukur hefur aflað sér sérmenntunar í Noregi í slökkvifræðum er tengjast almennum slökkvifræðum, fjallabjörgun, notkun körfubifreiða við slökkvistörf, sporvagnaelda, skips- og gróðurelda auk kennslufræða.

Sverrir Haukur hefur undanfarið séð um skipulagningu og kennslu atvinnuslökkviliðsnáms sem og hlutastarfandi náms slökkviliðsmanna á Bergen svæðinu og nágrenni en á því svæði búa yfir fimm hundruð þúsund manns.

Sverrir Haukur mun hefja störf hjá Brunavörnum Árnessýslu innan tíðar en hann er búsettur ásamt fjölskyldu sinni í Bergen. Þau undirbúa nú flutning fjölskyldunnar til Árnessýslu.