Unna Björg Ögmundsdóttir miðvikudagurinn 13. maí 2015

Og enn brennur sina

Þessi gervitunglamynd birtist á mbl.is. Þar sést vel hve stórt svæði brann 1. og 2. maí
Þessi gervitunglamynd birtist á mbl.is. Þar sést vel hve stórt svæði brann 1. og 2. maí
1 af 4
Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu hafa haft í nógu að snúast undanfarnar vikur. Síðustu þrjár vikur hafa verið 14 atvik þar sem þeir hafa verið kallaðir út, þar af níu sinueldar. Nú hefur verið þurrt mjög lengi og vindur og er það kjöraðstæður fyrir sinueld til að breiðast hratt út. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og því er rétt að minna fólk á að fara varlega, lítill neisti verður oft mikið bál! Þó svo að allir Íslendingar séu farnir að þrá sól og sumar þá er rigning ofarlega á óskalistanum hjá mörgum innan liðs BÁ þessa dagana - bara ekki of mikið af henni, takk!

Á einum vettvangi sinubruna, norðan við Stokkseyri í byrjun maí, voru nokkuð óvenjulegar aðferðir notaðar til slökkvistarfa. Flugvél fylgdist með úr lofti og kom boðum niður til manna um hvert þeir ættu að fara, og kajakar voru notaðir til að fara yfir tjarnir með lausar dælur, en vonlaust var að fara á bílum að eldinum. Það má því þakka áhugamálum slökkviliðsmanna fyrir hve vel gekk að slökkva eldinn sem náði yfir 19,4 hektara svæði.

Til samanburðar á þessum gríðarlega fjölda atvika sem hafa orðið síðustu þrjár vikur má skoða eldri tölur; í janúar og fram til byrjun apríl (16 vikur) voru líka 14 atvik sem kallað var út í, en frá september til desember 2014 var kallað út í 16 atvik.  Þetta er því mun meiri fjöldi en slökkviliðsmenn hafa vanist hingað til.

Myndir með fréttinni eru fengnar af mbl.is og frá slökkviliðsmönnum.