mánudagurinn 25. nóvember 2013

Sameiginleg fjarskiptamiðstöð fyrir Árnessýslu

Sigurður Harðarson, reyndasti fjarskiptahönnuður landsins, kemur búnaði fjarskipta fyrir í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.
Sigurður Harðarson, reyndasti fjarskiptahönnuður landsins, kemur búnaði fjarskipta fyrir í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.

Sameiginleg fjarskiptamiðstöð fyrir Árnessýslu

 

Undanfarið  hefur verið unnið að því að koma upp sameiginlegri fjarskiptamiðstöð í Björgunarmiðstöð Árborgar á Selfossi. Að þessu verkefni standa Almannavarnir Árnessýslu, Svæðisstjórn björgunarsveitanna og Björgunarfélag Árborgar .

 

Með fjarskiptamiðstöðinni mun öryggi íbúa á svæðinu aukast því hægt verður að miðstýra aðgerðum ef upp kemur t.d. jarðskjálfti eða einhver önnur stór vá. Fjarskiptamiðstöðin er hugsuð til að bregðast við almannavarnaástandi og verður einnig notuð í verkefnum er svæðisstjórnin kemur að.

Þar að auki mun búnaðurinn nýtast Björgunarfélagi Árborgar við sín björgunarstörf.

 

Um mjög fullkominn búnað er að ræða sem Sigurður Harðarson, rafeindavirki, hannaði og setti upp. Búnaðurinn nær sambandi  um allt svæðið, allt frá Eyjafjöllum og inn á hálendið. Tilkoma fjarskiptabúnaðarins og nýju fjarskiptamiðstöðvarinnar gerir Björgunarmiðstöðina í raun að eiginlegri björgunarmiðstöð því hún sameinar í eina miðstöð þá aðila sem eru í sama húsinu.

 
Auk þessa mun kennslu- og fundarsalur Brunavarna Árnessýslu á efri hæð hússins nýtast til verkefna  tengdum starfsemi almannavarna.

 

Nýja fjarskiptamiðstöðin er ein af fullkomnasta björgunarmiðstöð landsins og ánægjulegt að nú skuli vera hægt að hafa aðalstjórn björgunarmála á heimaslóðum.