1 af 3

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á Flúðum beittu klippum til þess að ná slösuðum einstaklingum úr bílflaki aðfaranótt annars í páskum. Um var að ræða bílveltu sem varð á Skeiðavegi rétt sunnan við Miðfell en fimm manns voru í bifreiðinni. Ein kona var flutt alvarlega slösuð með þyrlu landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur en fjórir aðrir voru fluttir með sjúkrabílum á sjúkrahús.

Slökkviliðsmenn þurftu að klippa tvo af fimm einstaklingum úr bílflakinu og gekk sú vinna hratt og vel fyrir sig. Kalt var í veðri, sex stiga frost og vindur. Við slíkar aðstæður eykst mikilvægi þess að allt gangi hnökralaust fyrir sig við að ná slösuðum í öruggt skjól og í aðhlynningu við betri aðstæður.

Um tvö ár eru síðan slökkviliðseining Brunavarna Árnessýslu á Flúðum fengu nýjar og öflugar björgunarklippur. Þær klippur hafa allnokkrum sinnum komið að gagni við björgunarstörf síðan þá.

Eins og gefur að skilja er ekki nóg að eiga góðan og öflugan búnað. Mikilvægi þess að æfa notkun búnaðarins verður seint of metið, því þegar á notkun búnaðarins þarf að halda liggur oft mikið við, björgunarmenn hafa beinlínis líf og framtíð þess er bjarga þarf í höndum sínum.

Brunavarnir Árnessýslu bjóða slökkviliðsmönnum sínum uppá mjög svo metnaðarfullt og yfirgripsmikið þjálfunarprógramm á hverju ári til þess að undirbúa þá fyrir þau fjölmörgu og erfiðu verk sem slökkviliðsmenn þurfa að mæta í störfum sínum. Það er síðan á erfiðum vettvöngum sem þessum, að berlega verður ljóst hversu mikil verðmæti samfélagið á í slökkviliðsmönnum sínum sem og öðrum björgunaraðilum.