föstudagurinn 6. desember 2013

Slökkviliðsmenn kynnast rafmagnsbílum

(F.v.) Þórir Tryggvason, varðstjóri og Sindri Karl Kristinsson, slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Árnessýslu við einn bílinn sem Bílabúð Benna lánaði.
(F.v.) Þórir Tryggvason, varðstjóri og Sindri Karl Kristinsson, slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Árnessýslu við einn bílinn sem Bílabúð Benna lánaði.

Þessi frétt er nöppuð af fréttavef Sunnlenska.is.

Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnessýslu fengu á dögunum kynningu á rafmagnsbílum, með tilliti til þess hvað beri að varast, þurfi að beita klippubúnaði til að losa fastklemmda einstaklinga eftir bílslys.

Mikið úrval er nú þegar fáanlegt af slíkum bílum hér á landi og töluverður fjöldi kominn í umferð. Upphafið að kynningunni má rekja til þess að Bílabúð Benna flytur inn eina gerð af slíkum bílum, Chevrolet Volt, og voru þeir hjá Benna búnir að halda stutta kynningu fyrir liðsmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.  

Einn liðsmaður hjá BÁ, Sindri Karl Kristinsson, starfar á verkstæði Bílabúðar Benna og varð það úr að upplýsingapakki fyrir björgunaraðila frá framleiðanda bílanna var fúslega lánaður austur fyrir fjall, og gott betur, því Bílabúð Benna lánaði Chevolet Volt rafmagnsbíl á allar æfingar fyrir liðið. Þær voru alls fjórar talsins á jafnmörgum stöðum í sýslunni.  

Að sögn Þóris Tryggvasonar, varðstjóra hjá BÁ, sem sá um kynningarnar ásamt Sindra Karli, þá var þetta alveg frábært framtak hjá Bílabúð Benna. „Við kunnum þeim hjá Benna bestu þakkir fyrir liðlegheitin. Það skiptir miklu máli að slökkviliðsmenn fái að sjá þessa bíla og skoða með eigin augum. Í þessum bílum er afar flókinn en fullkominn rafbúnaður sem þarfnast sérstakar aðgæslu hjá okkur sem sinnum björgun fólks eftir alvarleg bílslys,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is.