þriðjudagurinn 12. október 2010

Staða slökkviliðsins í Þorlákshöfn

F.v. Guðmundur Smári og Michal Rybniski, varðstjórar í Þorlákshöfn
F.v. Guðmundur Smári og Michal Rybniski, varðstjórar í Þorlákshöfn
Hvert sveitafélag ætti að geta verið stolt af sínu slökkviliði og það geta íbúar Sveitafélagsins Ölfus svo sannarlega verið.

Sameining við Brunavarnir Árnessýslu

Nokkrar breytingar hafa orðið á slökkviliðinu frá því í lok síðasta árs en þá sameinaðist Slökkvilið Þorlákshafnar Brunavörnum Árnessýslu. Við sameininguna var lögð niður staða slökkviliðsstjóra í Þorlákshöfn sem og staða varaslökkviliðsstjóra en stjórn liðsins færðist til slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu. Hins vegar var tekin upp staða varðstjóra sem Guðmundur Smári Tómasson gegnir sem og staða aðstoðarvarðstjóra sem Michail Rybniski gegnir.
Nokkrir öflugir slökkviliðsmenn létu af störfum við þessi tímamót sem alltaf er sárt og erfitt þar sem ákveðin reynsla og þekking hverfur með þeim sem fara. Sameiningar á hverjum tíma, hverjar sem þær eru, hugnast ekki öllum, þannig er það nú bara.
Hins vegar réðu sig til starfa nýir kröftugir menn til þess að fylla það skarð sem höggvið var. Síðan þá hafa þeir verið að þjálfa sig upp í að geta mætt öllum þeim krefjandi verkefnum sem upp kunna að koma í starfi þeirra sem slökkviliðsmenn.
Búnaður
Búnaðarmál slökkviliðsins eru með ágætum. Það hefur yfir að ráða þremur slökkvibifreiðum, nýjum öflugum forystu dælubíl, tankbíl sem samnýttur er með Sveitarfélaginu Ölfus til snjóruðnings og svo gamla bens bifreið sem búin er dælu og slöngum.
Talsvert hefur komið af nýjum búnaði á slökkvistöðina frá því að sameinað var og má þar með nefna að allur fjarskiptabúnaður liðsins var endurnýjaður eftir sameiningu. Tetratalstöðvar voru keyptar og VHF handtalstöðvar endurnýjaðar algjörlega. Einnig hefur verið aukið við hlífðarbúnað slökkviliðsins, handverkfæri og svokallað skipatengi var keypt sem gerir slökkvi-liðinu kleift að tengjast skipum og bátum. Slönguhjól voru keypt á framlengingar á háþrýstislöngur forystudælubílsins sem auðveldar útlögn þeirra þegar langt þarf að leggja, til dæmis í gróðureldum.
Frekari búnaðarkaup eru áætluð fyrir liðið sem og breytingar á slökkvistöðinni. Þar má nefna að til stendur að mála slökkvistöðina að innan, setja upp útsogskerfi sem og viftu og blásturs-kerfi til upphitunar í samstarfi við sveitafélagið. Setja á upp nýja skápa með þurrkunareiginleika fyrir slökkvigalla þar sem búnaður hvers og eins er betur aðgreindur og setja á upp hleðslukerfi fyrir rafgeyma slökkvibílanna.
Eftir sameiningu hefur útkallseining Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn fullann aðgang að öllum þeim tækjum, búnaði og mannskap sem Brunavarnir Árnessýslu hafa yfir að ráða. Einnig hafa slökkviliðsmenn Þorlákshafnareiningarinnar tækifæri til að stunda slökkviliðsæfingar annarra eininga Brunavarna Árnessýslu sem og að taka þátt í sameiginlegum æfingum sem haldnar eru til dæmis í virkjunum þeim sem á starfssvæðinu eru en slíkar æfingar eru haldnar fjórum sinnum á ári.
Það má því með sanni segja að margt hafi gerst á þessum átta mánuðum frá því að sameinað var og óhætt er að segja að margt til viðbótar eigi eftir að gerast með jákvæðni og góðum vilja.
Pétur Pétursson,varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu