Slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningar á suðurlandi hafa komið sér saman um að æðstu stjórnendur þeirra á stærri vettvöngum klæðist hvítum vestum til aðgreiningar. Er þetta gert til þess að auðvelda og skýra alla vinnu í kringum ákvarðanatöku á vettvangi og spara þar með tíma sem reynist oft dýrmætur þegar mikið liggur við. 

Í flestum tilfellum munu stjórnendur þessara viðbragðsaðila halda sig nálægt hver öðrum til þess að samræma alla ákvarðanatöku á sem skilvirkastan hátt og stytta boðleiðir. 

Brunavarnir Árnessýslu hafa tekið vestisvæðinguna skrefi lengra og hefur vakthafandi varðstjóri hjá þeim um nokkurt skeið klæðst rauðu vesti á vettvangi, stjórnandi reykkafara appelsínugulu og munu dælustjórar slökkviliðsins klæðast bláum vestum. Allt er þetta gert til þess að auka sjónrænt aðgengi á sem árangursríkastan hátt til þess að lágmarka þann tíma sem getur farið í að leita að viðkomandi aðila þegar á þarf að halda.