mánudagurinn 1. nóvember 2010

Stórbruni í Reykjavík, "eldveggir" brugðust.

Myndin er frá eldi í húsi á Sólheimum í Grímsnesi 2007
Myndin er frá eldi í húsi á Sólheimum í Grímsnesi 2007
Eldvarnaveggir náðu ekki upp í efstu klæðningu
Mikið tjón varð þegar eldur kviknaði í bíl, sem stóð inni á verkstæði að Eirhöfða 17 í Reykjavík laust fyrir klukkan eitt í nótt.
Allir slökkviliðsmenn á vakt voru sendir á vettvang á mörgum bílum og var bíllinn á verkstæðinu alelda þegar að var komið. Vel gekk að slökkva í honum en þá kom í ljós að eldurinn hafði náð að teygja sig í þak hússins og logaði þar í einangrun og bitum.
Bakvakt var kölluð út og börðust slökkviliðsmenn við eldinn í alla nótt, alveg fram á áttunda tímann, að slökkvistarfi lauk.

Eldveggir náðu ekki upp
Húsið er þrískipt en þar sem eldveggir náðu ekki upp úr þakinu, barst eldur um allt þakið og varð tjón í hinum tveimur hólfunum líka, en slökkviliðsmönnum tókst að verja viðbyggingu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem frágangur veggja í iðnaðarhúsum er ábótavant. Svona gallar eiga að koma fram þegar húsin eru tekin til lokaúttektarmeðferðar, en því miður er raunin sú að lokaóttektir eru frekar undantekning heldur en venja.

Leiðbeiningar um lokaúttektir er að finna hér að neðan:

Undir morgun hrasaði slökkviliðsmaður á þakinu og var hann fluttur á Slysadeild Landsspítalans, en er ekki alvarlega meiddur.
Eldsupptök eru enn ókunn, en rannsókn er að hefjast.

Undir vef Brunamálastofnunnar má sjá leiðbeiningablað um frágang veggja við loft.
http://www.brunamal.is/brunamalastofnun/upload/files/leidbeiningablod/leidbeiningarblad_153.pdf

 

Heimildir: Visir .is og Brunamálastofnun

---------------------------------------------------------------------------------------------------

Byggingareglugerð nr. 441/1998
53. gr.
Lokaúttekt.
53.1 Þegar smíði húss er að fullu lokið skal byggingarstjóri eða byggjandi óska eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa. Einnig geta þeir, sem hönnuðir og byggingarstjóri keyptu ábyrgðartryggingu hjá, krafist lokaúttektar. Viðstaddir lokaúttekt skulu auk byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra, vera byggingarstjóri og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða eru til þess boðaðir að kröfu byggingarfulltrúa. Í lokaúttekt skal m.a. taka út þætti er varða aðgengi.
53.2 Byggingarstjóri skal tilkynna hönnuðum og iðnmeisturum hvenær lokaúttekt fer fram.
53.3 Við lokaúttekt skal byggingarstjóri leggja fram eftirtalin gögn:
a) Staðfestingu löggildingarstofu um að rafvirkjameistari hafi tilkynnt til hennar að raforkuvirki byggingarinnar sé tilbúið til úttektar, eða eftir atvikum leggi fram úttektarskýrslu.
b) Yfirlýsingu hönnuðar og rafvirkjameistara um að brunaviðvörunarkerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar kerfisins hafi verið gerður.
c) Yfirlýsingu frá hönnuði og pípulagningameistara um að vatnsúðakerfi eða sambærilegt kerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar kerfisins hafi verið gerður.
d) Yfirlýsingu frá Vinnueftirliti ríkisins um að lyfta og búnaður hennar hafi verið prófaður með fullnægjandi hætti og þjónustusamningur vegna reksturs hennar liggi fyrir.
e) Yfirlýsingu frá pípulagningameistara um að hitakerfi hafi verið stillt samkvæmt hönnunarforskrift og stýritæki séu virk.
f) Yfirlýsingu hönnuðar og blikksmíða-, pípulagninga- og rafvirkjameistara um að loftræsikerfi hafi verið stillt, samvirkni tækja prófuð og afköst séu samkvæmt hönnunarforskrift.

54. gr.
Útgáfa lokaúttektarvottorðs.
54.1 Komi fram við lokaúttekt atriði sem þarfnast úrbóta skal byggingarfulltrúi setja byggingarstjóra og byggjanda tímafrest til að ljúka endurbótum. Að loknum tímafresti skoði sömu aðilar verkið að nýju og sé úrbótum lokið skal byggingarfulltrúi gefa út lokaúttektarvottorð. Slík vottorð má ekki gefa út nema að gengið sé úr skugga um að fullnægt hafi verið öllum tilskildum ákvæðum um gerð og búnað sem krafist er fyrir íbúðarhúsnæði og starfsemi, sé um atvinnuhúsnæði eða annað húsnæði að ræða. 


55. gr.
Hús tekið í notkun.
55.1 Ekki má flytja inn í ófullgert húsnæði eða hefja starfsemi í því nema ákvæðum varðandi burðarþol, hollustuhætti og brunaöryggi sé fullnægt. 


55.2 Húsnæði sem samþykkt hefur verið fyrir samkomuhald, veitingastarfsemi og hótelrekstur ásamt kvikmynda- og leikhúsum má ekki taka í notkun nema að undangenginni lokaúttekt.


55.3 Sé ófullgert húsnæði tekið í notkun skal byggingarstjóri óska eftir úttekt á stöðu framkvæmda. Kallast sú úttekt stöðuúttekt. Viðstaddir stöðuúttekt skulu vera sömu aðilar og við lokaúttekt. Á stöðuúttektarvottorði skal getið um áframhaldandi ábyrgð byggingarstjóra og meistara á verkinu. Byggingarfulltrúi skal setja byggjanda frest til að ljúka framkvæmdum. Séu tímafrestir sem gefnir eru við loka- og stöðuúttekt ekki virtir er hægt að beita ákvæðum um dagsektir.