Um daginn komu hingað á slökkvistöðina á Selfossi tveir menn með þunga ferðatösku í eftirdragi.
Við nánari skoðun á þessum köppum kom í ljós bein tenging við okkar góðu vinkonu og félaga, Svölu Þrastardóttur, f.v. slökkviliðsmanns hjá BÁ.
Umræddir menn voru þeir Bjarki Þór Arnbjörnsson sambýlismaður Svölu og faðir hennar, Þröstur Brynjólfsson, f.v. yfirlögregluþjónn í Árnessýslu.
Erindið var að skila kveðjum frá Svölu sem býr nú í Gimli Manitoba í Kanada ásamt sambýlismanni sínum. Með hlýjum kveðjum frá henni fylgdi full taska af stórum og góðum handklæðum.
Jú, Svala sá það á fésinu að slökkviliðsmenn höfðu eignast stórt og öflugt kar sem notað er fyrir KALT bað eftir að slökkviliðsmenn hafa farið í afeitrunarbaðið eftir reykköfunarvinnu. Hún las að grey-karlarnir voru að þurrka sér á „bévítans“ bleðlum, kaldir og hraktir.
Full taska af handklæðum af stærri gerðinni var því gjöf frá henni til sinna manna á ÍS-landi, en Svala kom ekki með í þessa ferð og sendi því sinn ektamaka og pappa sinn með gjöfina í töskunni góðu.
Við slökkviliðsmenn hér á Klakanum, færum Svölu og hennar fólki HLÝJAR kveðjur og þakklæti fyrir sendinguna.