Unna Björg Ögmundsdóttir miðvikudagurinn 28. mars 2012

Tvö brunaútköll í íbúðarhús

Frá slökkvistarfi á Selfossi 27. mars
Frá slökkvistarfi á Selfossi 27. mars

Það sem af er mars mánuði hafa tvö útköll verið vegna elds í íbúðarhúsum.

Fyrra útkallið var aðfararnótt 15. mars í Hveragerði en þar var um að ræða eld í sambyggðri þvottavél/þurrkara. Mikil mildi þykir að ekki fór verr en húsráðandi var ekki genginn til náða þegar reyksins var vart. Ekki var um mikinn eld að ræða, aðeins glæður en reykur var þó nokkur. Fimm slökkviliðsmenn úr Hveragerði mættu á vettvang auk varðstjóra frá Selfossi.

 

Seinna útkallið var í gær, 27. mars þegar eldur kom upp á 2. hæð í íbúðarhúsi á Selfossi. Kertalogi festi sig í gardínu en íbúi í húsinu brást fljótt við og notaði slökkvitæki hússins á eldinn. Að því loknu lokaði hann inn í herbergið og fór út. Þegar slökkviliðið kom á vettvang var ljóst að eldur var enn inni í rýminu og fór reykkafari inn og slökkti eldinn. Einhverjar skemmdir urðu í herberginu að völdum reyks og slökkvistarfs en lítill reykur barst í önnur rými. Alls mættu 12 slökkviliðsmenn í útkallið.

 

Í báðum tilfellum má þakka fyrir að ekki fór verr og vilja starfsmenn BÁ minna á nauðsyn eldvarnarbúnaðar, reykskynjara og slökkvitækja, í öllum húsum.

 

Mynd: Fréttavefurinn www.sunnlenska.is