1 af 3
Brunavörnum Árnessýslu bárust tvö útköll í nótt.
 
Það fyrra barst um klukkan 02:00 þar sem innhringjandi hafði tilkynnt til Neyðarlínu 112 um brunalykt á Selfossi en tilkynnandi áttaði sig ekki á hvaðan brunalyktin kæmi. Slökkvilið og lögregla leituðu af sér allan grun með akstri um bæinn en ekkert fannst. Talið er líklegast að þarna hafi veri um lykt frá HP kökugerð að ræða.
 
Seinna útkallið barst rétt fyrir klukkan 06:00. Þá var tilkynnt um þjónustuhús í ljósum logum á tjaldstæði í Þorlákshöfn. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Þorlákshöfn voru fljótir á staðinn og tókst að ráða niðurlögum eldsins á skammri stund enda var um lítið hús að ræða. Húsið er hins vegar gjör ónýtt og næsta hús við hliðina er mikið skemmt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.