Nokkuð erilsamt hefur verið á útkallssviði Brunavarna Árnessýslu á fyrri helmingi þessa árs. Útköll á stöðvar slökkviliðsins voru 83 á tímabilinu janúar byrjun til júní loka. Til samanburðar þá voru einungis 85 útköll á stöðvar slökkviliðsins á öllu síðasta ári en það ár var reyndar óvenju rólegt ár hvað útköll varðar.

 

Meginþorri útkalla sem af er árinu 2015 hafa komið milli klukkan 09:00 – 21:00 eða rúmlega 90% en sé litið til dagvinnutíma eða frá klukkan 08:00 – 16:00 þá komu rúmlega 42% útkalla á stöðvar BÁ á þeim tíma.

 

Dreifing útkallanna á stöðvarnar er nokkuð jöfn að undanskilinni starfsstöðinni á Selfossi en 32 útköll hafa komið á þá starfsstöð. Slökkviliðseining BÁ á Selfossi fer því á einn eða annan hátt í 38% útkalla í Árnessýslu.

 

Ef litið er á fjölda útkalla á stöðvar BÁ eftir sveitarfélögum sem eiga og reka Brunavarnir Árnessýslu þá eru flest útköll í Árborg eða 24 talsins. Það eru 29% af útköllum á stöðvar BÁ í sýslunni. Næst á eftir Árborg kemur Bláskógarbyggð með 18 útköll á stöðvar eða um 22% útkalla. Fast á hæla Bláskógarbyggðar fylgir Grímsnes og Grafningshreppur með 15 útköll á stöðvar sem eru um 18% útkalla á fyrri hluta árs 2015.

 

Ástæður útkallanna eru eins og svo oft áður í flestum tilfellum vegna elds eða 47 útköll á stöðvar sem samsvarar 55% af útköllum á fyrri hluta ársins. Þar á eftir koma umferðaóhöpp eða 24 útköll á stöðvar sem reiknast 28% útkalla.

 

Forgangur þessara útkalla skiptist þannig að F1 og F2 útköll voru um 64% útkalla. F1 og F2 útköll krefjast forgangsaksturs sökum alvarleika þeirra.

36% útkalla á stöðvar BÁ voru hinsvegar F3 og F4 útköll sem ekki krefjast forgangsaksturs.

 

Útkallsstörf eru einungis hluti af starfsemi slökkviliða og er tölfræði þess hluta starfseminnar gerð skil hér. Ég vona að þessi tölfræði veiti þeim sem áhuga hafa einhverja innsýn í þennan hluta starfsins.