Unna Björg Ögmundsdóttir miðvikudagurinn 8. febrúar 2017

Útköll í janúar

Seinni hluta janúarmánaðar voru tvö stór útköll af ólíkum toga hjá Brunavörnum Árnessýslu.

 

Fyrst ber að nefna bruna á Stokkseyri, 22.janúar, þar sem eldur kom upp í mannlausu einbýlishúsi. Þegar slökkviliðið bar að garði var húsið alelda og þar sem talið var fullvíst að það væri mannlaust þótti ekki ástæða til að tefla öryggi slökkviliðsmanna í hættu og senda þá inn í húsið. Slökkvistarfið fór því fram utanfrá og gekk nokkuð vel. Eldsupptök eru ókunn en Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

 

29.janúar varð harður árekstur tveggja jeppa á Biskupstungnabraut við Búrfellsafleggjara. Betur fór en á horfðist og ekki þurfti að beita klippum til að ná fólki út úr bílunum. Hlutverk BÁ á vettvangi var engu að síðu fjölbreytt, m.a. lokun vega í samvinnu við lögregluna, aðstoð við sjúkraflutninga og hreinsun á vettvangi. Sjö manns voru fluttir á sjúkrahús og fóru tveir slökkviliðsmenn BÁ með í þá flutninga. Þessi vettvangur sýndi vel hversu mikilvægt er að allir viðbragðsaðilar þekki hver annan og vinni saman sem ein heild þegar kallið kemur.