þriðjudagurinn 3. júní 2008

Varðstjórabíll slökkviliðsins

Varðstjórar slökkviliðsins við nýja varðstjórabílinn.
Varðstjórar slökkviliðsins við nýja varðstjórabílinn.

Fyrir nokkrum misserum fengu varðstjórar Brunavarna Árnessýslu afhenta bifreið til noktunar á vöktum. Eftirfarnadi frétt vegna þessa birtist í Dagskránni.

"Vegfarendur um Selfoss hafa tekið eftir því að stundum bregður fyrir rauðum bíl merktur slökkviliðinu í bak og fyrir.

Hér er á ferðinni nýr bíll á vegum Brunavarna Árnessýslu sem ætlaður er fyrir varðstjóra slökkviliðsins í neðri hluta Árnessýslu.

 

"Við vorum með lítinn bíl á einu drifi þar til í vetur að þessi SUBARU LEGASY bíll var keyptur"sagði Kristján K. Pétursson, varðstjóri.

"Þetta er alger bylting, ég hefði ekki boðið í þann litla í allri ófærðinni sem gerði vart við sig á liðnum vetri. Hér er bíll sem er með 4x4 drifbúnað, lítillega hækkaður, þannig að umskiptin eru mikil og öryggi meira." sagði Kristján.

 

Skipulag slökkviliðsins er þannig að fjórir varðstjórar, staðsettir á Selfossi, skipta með sér að vera á vakt allt árið. Um er að ræða hlutastarfandi slökkvilið, þannig að þessir menn vinna fulla vinnu annarsstaðar en hjá slökkviliðinu. Vakthafandi hefur vaktina á þriðjudögum og stendur hana í viku. Hann hefur þá skildu að vera ávallt til taks á svæðinu hvenær sem kallið kemur og hann má ekki fara út fyrir ákveðin radíus (15 km) svo að viðbragðið haldist viðunandi. Vakthafandi varðstjóri hefur bílinn góða til umráða á meðan vaktin stendur og hann fer í flestum tilfellum fyrstur á staðinn þar sem vettvangur útkallsins er.

Varðstjóri metur þá aðstæður og skipar liði sínu eftir því þegar það mætir á staðinn.

 

Nýi Subaru bíllinn er  hlaðinn búnaði, neyðarljós og sírena, VHF og Tetra talstöðvum, Staðsetningarbúnaði (GPS) sem jafnframt er handfrjáls búnaður fyrir farsímann. Öllu þessu er þannig komið fyrir að auðvelt sé að nota það og hefti ekki varðstjórann sem þarf að hugsa margt á leið á slysstað hverju sinni.

 

Brunavarnir Árnessýslu eru með þrjár slökkvistöðvar í uppsveitum, Árnesi,Reykholti og Laugarvatni. Þar eru varðstjórar sem ekki standa samskonar vaktir og gert er á Selfossi.