Almannavarnir og björgunaraðilar í Árnessýslu stóðu fyrir stórslysaæfingu síðastliðin fimmtudag. Auk björgunaraðila í Árnessýslu tóku björgunaraðilar í Rangárvallasýslu þátt í að leysa verkefnið á vettvangi. Sett var á svið rútuslys við gömlu brúnna yfir Þjórsá en auk rútunnar voru fjórir fólksbílar sem fléttuðust inní slysið. 64 mismikið „slasaðir“ leikarar tóku þátt í æfingunni en þeir komu flestir frá unglingadeildum björgunarsveitanna.

Aðgerðastjórn var staðsett í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi en æfingin átti bæði upphaf sitt og enda þar.

Tilgangur og markmið æfingarinnar var að æfa viðbragð og samstarf allra þessara aðila við slysi af þessari stærðargráðu auk þess að finna þau atriði sem bæta má og gera betur.

Segja má að æfingin hafi í alla staði gegnið mjög vel, samstarf milli aðila var eins og best verður á kosið og er alveg ljóst að björgunaraðilar geta hæglega unnið úr slysum af þessari stærðargráðu þó svo að alltaf megi bæta og slípa ákveðna þætti.

Á miðri æfingu voru allir þátttakendur æfingarinnar látnir fylla út spurningalista en niðurstöður þeirra spurninga verða notaðar til þess að bæta skipulag, verklag og verkferla björgunaraðila sé þess þörf.

Það kom berlega í ljós á æfingunni að bjögunarmáttur svæðisins er gríðarlegur og vilji til verka er ómældur. Við getum verið stolt af okkar fólki sem gefur sig í þessi störf, hvort sem það er hluti af þeirra atvinnu eða sjálfboðaliðastörf, þá þegar á reynir vinna allir saman sem einn maður.