Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni, Reykholti, Flúðum og Árnesi, komu saman í gær á Laugarvatni til þess að æfa björgun fastklemmdra úr stórum ökutækjum. Auk vörubíla voru fólksbílar klipptir líka til þess að hafa æfinguna sem fjölbreyttasta. 

Um þessar mundir er áhersla lögð á björgun slasaðra úr stórum Ökutækjum á æfingum hjá Brunavörnum Árnessýslu en eins og allir vita þá er umferð slíkra tækja gríðarleg um sýsluna. 

Stutt er í veturinn með tilheyrandi hálku og ófærð og því tímabært að auka og viðhalda færni slökkviliðsmanna í vinnu með björgunarbúnað sem notaður er í bílslysum til þess að sú vinna geti gengið sem allra best fyrir sig þega á þarf að halda.