Viðbrögð við eftirskjálftum
Eftirskjálftar
Eftir jarðskjálfta fylgja jafnan eftirskjálftar. Verið viðbúin slíkum skjálftum.
Innandyra / utandyra
Klæðist skóm
Farið í skó og hlífðarföt, ef glerbrot eru á gólfum eða brak að falla.
Viðlagakassinn
Náið í viðlagakassann, ef hann er fyrir hendi og ef þörf er fyrir hann.
Slys - Meiðsli
Athugið hvort einhver hefur slasast og ef svo er þá tilkynnið það Neyðarlínunni í síma 1-1-2.
Síminn virkar ekki
Ef ekki er hægt að ná í hjálp símleiðis, skal auðkenna slysstað með hvítri veifu. Síminn er öryggistæki og þegar neyðarástand hefur skapast getur álag á símkerfið leitt til þess að þeir sem þurfa á hjálp að halda ná ekki sambandi. Ef það er rafmagnslaust þá er oft hægt að ná sambandi með skífusíma.
Hússkemmdir:
Vatnsleki -Rafmagn
Lokið fyrir vatnsinntak ef leki er óviðráðanlegur og slökkvið á aðalrofa í rafmagnstöflu ef húsið er skemmt.
Eldur - eldmatur
Athugið hvort eldur er laus og notið ekki opið ljós eða eld ef hætta er á að eldfim efni hafi hellst niður.
Rýming
Farið rólega út ef þú telur að húsið sé óíbúðarhæft eftir skjálfta. Mörg slys verða þegar fólk hleypur út í óðagoti eftir jarðskjálfta. Gott er að vera vel klæddur ef yfirgefa þarf húsið, sérstaklega að vetri til. Sjá Brottflutningur - Rýming.
Söfnunarstaður
Farið á fyrirfram ákveðinn söfnunarstað utanhúss og ráðfærið ykkur við fjölskylduna áður en næsta skref er tekið.
Bíllinn oft fyrsta skjólið
Munið að bifreið er oft fyrsta upphitaða skjólið sem völ er á og þar er útvarp. Akið með fyllstu aðgát og athugið að vegir og brýr geta hafa skemmst. Munið eftir fjöldahjálparstöðvum í skólum.
Útvarp - tilkynningar
Hlustið eftir tilkynningum og fréttum í fjölmiðlum. Farið eftir þeim fyrirmælum sem kunna að vera gefin. Gott er að hafa útvarp með langbylgju ef FM sendar detta úr. Nánar um sendingar útvarps.
Fallnar raflínur
Aldrei snerta fallnar raflínur.
Nágrannahjálp
Athugið hvort nágrannar ykkar þurfa á aðstoð að halda. Munið, að ef margir slasast þá getur orðið bið á því að hjálp berist.
MUNIÐ:
Á neyðartímum er síminn öryggistæki
og skal einungis notaður í neyð. Hafið símtöl eins stutt og hægt er